Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, sem heldur utan um eignir sem bankinn hefur tekið yfir, hefur sett matvælaframleiðslufyrirtækið Fram Foods í Reykjanesbæ í söluferli. Fyrirtækið var upphaflega hluti af Bakkavör. Um mitt ár 2003 keyptu nokkrir starfsmenn Bakkavarar reksturinn að stórum hluta og hófu sjálfstæðan rekstur. Hjá Fram Foods starfa 125 manns í dag.

Fram Foods er með stærstu framleiðendum hrogna og síldarafurða í Norður Evrópu og með starfsemi hér, í Finnlandi og í Svíþjóð. Helstu afurðirnar eru kavíar og síld sem seld eru á Norðurlöndunum.

Fyrirtækið tapaði 24,7 milljónum evra, jafnvirði 4,1 milljarðs króna, árið 2009 og 11 milljónum evra, rúmum 1,8 milljörðum króna, árið 2010. Eigið fé fyrirtækisins var á sama tíma neikvætt um 24 milljónir evra árið 2009 og 33,6 milljónir evra árið 2010. Fram kemur í auglýsingu um söluna sem birt er í dagblöðum í dag að velta Fram Foods nemi 30 milljónum evra, jafnvirði 5 milljarða króna.

Helstu eigendur Fram Foods árið 2009 voru Bakkavör Group, með 31% hlut, og Kaupþing, sem átti 26%.

Samkvæmt uppgjöri fyrirtækisins árið 2009 hafði fyrirtækið þegar rofið skilmála í tveimur lánasamningum gagnvart Arion banka og tók bankinn yfir 56,17% hlut í félaginu árið 2010. Félagið rann síðar allt inn í bankann.