*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 15. september 2020 14:34

Arion banki eignaðist hús Skúla

Glæsivilla sem Skúli Mogensen veðsetti til að bjarga Wow og ætlaði svo að selja sjálfur er komin í eigu bankans.

Ritstjórn
Skúli Mogensen átti húsið við Hrólfsskálavör á Seltjarnarnesi, en það er nú komið í eigu Arion banka.
Haraldur Guðjónsson

Glæsivilla stofnanda og fyrrum forstjóra flugfélagsins Wow air við Hrólfsskálavör 2 á Seltjarnarnesi er nú komin í eigu Arion banka að því er Morgunblaðið greinir frá. Sérstök sölusíða sem sett var upp eftir gjaldþrot flugfélagsins til að markaðssetja glæsivillina til erlenda aðila er þó enn virk, en fram hafði komið að Skúli vildi fá 700 milljónir króna fyrir það.

Eins og Viðskiptablaðið sagði þá frá er húsi 630 fermetrar að stærð, með fimm baðherbergjum, 3 svefnherbergjum, líkamsræktarsal, tveim heitum pottum, kvikmyndasal, tveimur sölum, skrifstofu, fjölskylduherbergi, þvottaherbergi og fleira.

Skúli Mogensen veðsetti húsið á 2,77 milljónir evra, þá um 358 milljónir króna, fyrir um tveimur árum síðan að því er Stundin greindi frá, sem samsvarar í dag um 443 milljónum króna. Fasteignamat hússins nemur hins vegar rétt rúmlega 192 milljónum króna.

Húsið er búið ýmsum lúxus eins og eldhúsinnréttingu frá ítalska hönnunarfélaginu Poggenpohl og Boffi, en innanhúshönnun var í höndum Grímu Bjargar Thorarensen hjá GBT Interiors, kærustu og barnsmóður Skúla og Selmu Ágústsdóttur hjá Namó Design.