Þrjú stór dómsmál er snúa að verðtryggðum íslenskum neytendalánum eru fyrir dómstólum. Málflutningur í tveimur þeirra, máli Gunnars Engilbertssonar gegn Íslandsbanka og Theodórs Magnússonar og Helgu Margrétar Guðmundsdóttur gegn Íbúðalánasjóði, fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudaginn.

Viðskiptablaðið greindi frá því 4. desember að Héraðsdómur hefði ákveðið að sameina fjögur mál sem fjalla um verðtrygginguna og halda sameiginlegt þinghald með fjölskipuðum dómi nú í byrjun janúar. Auk málanna sem fóru fyrir dóm á mánudaginn voru það mál Sævars Jóns Gunnarssonar gegn Landsbankanum og nauðungarsölumál gegn Arion banka.

Fyrir jól féll Arion banki frá nauðungarsölunni og þar af leiðandi fer það mál ekki fyrir dóm. Óvíst er hvenær aðalmeðferð í máli Sævars Jóns fer fram því lögmenn hans óskuðu eftir því við Héraðsdóm að fá dómkvaddan matsmann til að fjalla um verðtrygginguna. Dómurinn hafnaði matsbeiðninni 22. desember og var ákvörðunin kærð til Hæstaréttar sem mun væntanlega dæma í málinu síðar í mánuðinum. Líklegt er að aðalmeðferð í máli Sævars Jóns fari fram í lok janúar  eða byrjun febrúar.

Þrjú mál standa eftir

Þrjú mál standa því eftir en það eru mál Gunnars gegn Íslandsbanka, mál Theodórs og Helgu Margrétar gegn Íbúðalánasjóði og mál Sævars Jóns gegn Landsbankanum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .