„Við höf­um fengið marg­ar ábend­ing­ar frá viðskipta­vin­um okk­ar und­an­farn­ar vik­ur í tengsl­um við verðskrá bank­ans. Við höf­um hlustað á þær ábend­ing­ar og ákveðið að hækka ekki verð á þjón­ustu við okk­ar viðskipta­vini út þetta ár. Við verðum þó að setja þann fyr­ir­vara að ytri áhrifaþætt­ir, eins og t.d. breyt­ing­ar á skatti, gætu leitt til verðbreyt­inga,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, í tilkynningu sem hann sendir viðskiptavinum bankans og mbl.is greinir frá.

Í verðskrá bankans voru boðaðar verðhækkanir á gjaldkeraþjónustu sem áttu að taka gildi 1. mars næstkomandi. Í september síðastliðnum sagði Höskuldur að stóru bankarnir hefðu allir opnað sjálfvirk útibú og benti hann á að 40% þeirra sem kæmu í útibú bankans gerðu það til að taka út peninga, en slíkt væri hægt að gera sjálfvirkt. Viðskiptavinir myndu nú hafa val um að greiða hærra verð fyrir þjónustu gjaldkera eða ekkert í sjálfvirkri þjónustu.

„Við höf­um nú end­ur­skoðað þær hækk­an­ir og ákveðið að falla frá þeim. Við mun­um hins veg­ar ekki falla frá nýju af­greiðslu­gjaldi sem snýr fyrst og fremst að viðskipta­vin­um annarra banka og mun skila sér í betri bankaþjón­ustu við viðskipta­vini okk­ar. Þetta er gjald vegna inn­borg­ana reiðufjár og út­tekta reiðufjár af reikn­ing­um í öðrum bönk­um,“ segir í tilkynningu bankans.