„Við erum að fara yfir forsendur dómsins,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka aðspurður um viðbrögð við dómi Hæstaréttar sem féll fyrr í dag í máli Borgarbyggðar gegn bankanum. Héraðsdómur Vesturlands hafði áður sýknað bankann af kröfum Borgarbyggðar en Hæstiréttur snéri þeim dómi við í dag.

Ekki er ljóst að fullu hvað þetta þýðir fyrir Arion banka eða aðrar lánastofnanir. Það fer eftir því hversu fordæmisgefandi dómurinn er og hversu mikið bankarnir hafa fært niður lánasöfn sín með varúðarfærslum vegna yfirvofandi dómsmála um gengislán.

Í meginatriðum snýst málið um að ekki er hægt að reikna vexti af ólögmætum gengislánum afturvirkt. Skuld Borgarbyggðar stendur því nú í rúmum 128 milljónum króna við bankann. Samkvæmt útreikningum áður en dómur féll var skuldin talin nema 213 milljónum króna. Þegar lánið var talið vera gilt gengistryggt lán þá stóð skuldin í

„Þá taldi Hæstiréttur að lög nr. 151/2010 gætu ekki haggað áðurgreindri niðurstöðu um uppgjör milli aðila, enda væri ekki með almennum lögum unnt að hrófla með afturvirkum hætti við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslur skulda frá því sem var gilti þegar til þeirra var stofnað og af þeim greitt, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar,“ segir meðal annars í dómi Hæstaréttar. Með þessu er Hæstiréttur að taka fram að útreikningar á ólögmætum lánum í takt við lögin sem kennd eru við Árna Pál standist ekki stjórnarskrá.

„Loks féllst Hæstiréttur á réttmæti þeirrar aðferðar B[orgarbyggðar] við endurútreikning lánsins, að afborganir af höfuðstól skuldar, sem B[orgarbyggða] innti af hendi til og með þess dags sem A[rion banki] hf. miðaði útreikning sinn við, kæmu að fullu til frádráttar höfuðstól lánsfjárhæðarinnar, sem hvorki bæri gengistryggingu né annars konar verðbætur, og að fjárhæð greiddra vaxta hefði engin áhrif þar á enda teldust þeir að fullu greiddir vegna þessa tímabils. “