Þrjú félög stefna á skráningu á aðallista Kauphallarinnar í ár og mun Arion banki vera umsjónaraðili með þeim útboðum. Félögin eru Reitir, Eik og Síminn og er Arion banki stærsti hluthafinn í þessum þremur félögum. Það kostar sitt að skrá félag á markað en seljandi hlutarins ákveður hvaða kostnað hann sjálfur tekur og hvaða kostnað félagið sem fer á markað tekur. Heildarkostnaður við skráningarferlið er á bilinu 100-300 milljónir, oftast í efri mörkum.

Arion banki gæti því fengið allt að 800- 900 milljónir fyrir að annast lýsinguna á þessum þremur félögum. Kauphöllin tekur hluta af uppgefinni tölu í lýsingunni og aðrir aðilar líkt og ráðgjafar og lögfræðingar geta þar einnig átt hluta af kostnaði. Hins vegar fer stærsti hlutinn til umsjónaraðila sem sjá um vinnuna við útboðin.

Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs hjá Arion banka, segir að menn þurfi að átta sig á því að þegar verið sé að selja hlutabréf til almennings þurfi hlutirnir að vera í lagi. Hann tekur því ekki undir það að ferlið sé of kostnaðarsamt. Ekki megi gera lítið úr því að unnið sé vel að útboðslýsingu enda mikil ábyrgð sem fylgi því að selja verðbréf til almennings. Ekki eigi að spara í áreiðanleikaskoðunum sem séu oft tvær til fjórar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .