Arion banki gaf í dag út skuldabréf til þriggja ára að upphæð 300 milljónir evra eða sem nemur rúmum 34 milljörðum íslenskra króna. Í heild bárust tilboð frá 80 fjárfestum fyrir rúmlega 750 milljónir evra og var umframeftirspurn því ríflega tvöföld. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Skuldabréfin bera fasta 0,75% vexti og voru seld á kjörum sem jafngilda 0,88% álagi á millibankavexti. Goldman Sachs, JPMorgan, Nomura og UBS sáu um útgáfuna fyrir hönd bankans. Sem fyrr verður hluti útgáfunnar nýttur til að greiða niður eldri lán.

Í fréttatilkynningunni segir Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka: „Arion banki er nú orðinn reglulegur útgefandi á erlendum skuldabréfamarkaði og aukinn fjöldi þátttakenda í útiboðinu ber mark um að bankinn sé orðinn þekktur meðal fjárfesta. Það er afar ánægjulegt að sjá kjör Arion banka á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum halda áfram að batna því bætt kjör sýna aukinn áhuga á bankanum og staðfesta vaxandi traust til okkar. Þessi jákvæða þróun skiptir okkur og viðskiptavini okkar miklu og eflir samkeppnisstöðu bankans.“