Arion banki: Gott skyggni hjá Icelandair Group
Spá góðri afkomu Icelandair Group á 3F – Segja Icelandair geta nýtt sér samdrátt stærri erlendra flugfélaga

Icelandair Group: 3. ársfjórðungur – Skyggni gott
Greiningardeild Arion banka gerir ráð fyrir að tekjur Icelandair Group á þriðja árfjórðungi verði 34,6 milljarðar króna og að EBITDA félagsins verði um 8,7 milljarðar. Staða félagsins er því töluvert frábrugðin erlendum flugfélögum sem mörg hver hafa skilað lélegri afkomu núna á þriðja ársfjórðungi.

Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka en Icelandair Group mun á morgun birta afkomu sína fyrir þriðja ársfjórðung. Þriðji ársfjórðungur er ávallt langsterkasti fjórðungurinn hjá félaginu bæði hvað veltu og afkomu varðar.

Þá segir að miðað við flutningstölur félagsins á þriðja ársfjórðungi megi gera ráð fyrir töluverðum vexti frá fyrra ári. Fjöldi farþega Icelandair hafi aukist um 19,5% það sem af er ári og vöxturinn á þriðja ársfjórðungi hafi vöxturinn numið 17%.

Greiningardeildin gerir þó ráð fyrir að eldsneytisreikningur félagsins verði um 40% hærri í ár samanborið við fyrra ár. Þrátt fyrir að flugvélaeldsneyti hafi lækkað aðeins á þriðja ársfjórðungi þá sé það enn tiltölulega hátt og stendur í dag í um 1.025 dollurum á tonnið.

Segja Icelandair geta nýtt sér samdrátt stærri flugfélaga

Í markaðspunktum Arion er fjallað um mikinn samdrátt erlendra flugfélaga undanfarið. Sem kunnugt er hafa mörg of stærstu flugfélögunum í Evrópu og Bandaríkjunum tilkynnt að þau hyggist leggja flugvélum og draga úr sætaframboði vegna þeirrar efnahagsóvissu sem nú ríkir.

„Erlendir greiningaraðilar virðast flestir sammála um að önnur flugfélög eigi að fara að fordæmi þessara aðila og minnka framboð til þess að draga úr kostnaði. Ekki sé nóg að draga úr áður áætlaðri framboðsaukningu,“ segir í markaðspunktunum.

Þar segir jafnframt:

„Í nýútkominni fjárhagsspá alþjóðasamtaka flugfélaga, IATA, er gert ráð fyrir því að hagnaðurinn í fluggeiranum muni skreppa saman um tæp 30% árið 2012 samanborið við áætlaðan (og endurmetinn) hagnað fyrir árið í ár. Það verði þó að teljast jákvætt að fluggeirinn muni skila hagnaði á árinu, þrátt fyrir hátt olíuverð og mikla óvissu í efnahagsmálum. Hins vegar ber að hafa í huga að fjárhagsafkoma flugfélaga er mjög háð fjárhagslegri heilsu hagkerfa heimsins og til að mynda þá hefur fluggeirinn skilað neikvæðri afkomu þegar hagvöxtur hefur verið undir 2%. Að mati samtakana, þá eru flugfélög að búa sig undir erfiða tíma framundan, þar sem mikil óvissa ríkir sökum skuldakreppunnar í Evrópu auk þess sem að meiri líkur séu nú á því að hægur efnahagsbati í þróuðum hagkerfum dragist á langinn. Þetta leiði óhjákvæmilega til þess að flugfélög muni einblína enn frekar á að draga úr kostnaði og auka hagkvæmni (t.d. með minna framboði).“

Greiningardeildin segir að þrátt fyrir versnandi horfur í flugbransanum búist hún ennþá við töluverðum vexti hjá Icelandair Group á næsta ári, eða um 7,5% tekjuvexti.

„Þetta kann að skjóta svolítið skökku við í ljósi umfjöllunarinnar [...] en Icelandair er hinsvegar ekki hið týpíska flugfélag, þ.e. uppbygging þess er frábrugðin uppbyggingu stærri flugfélaga,“ segir í markaðspunktunum.

„Icelandair hefur einmitt oft notið góðs af því þegar stór erlend flugfélög draga úr framboði og til að mynda var árið 2002 metár hjá félaginu, en það ár var almennt mikill samdráttur í flugi í kjölfar hryðjuverkaárasanna 11. september 2001. Icelandair er að keyra á hagkvæmum smærri vélum (Boeing 757) sem taka 180 manns í sæti á meðan stóru flugfélögin eru kannski með 300-400 manna vélar. Það er því kostnaðarsamara fyrir þau félög að fljúga þeim vélum (beint yfir Atlantshafið) þegar samdráttur gerir vart við sig. Icelandair getur þannig notið góðs af minna framboði annarra félaga þar sem eftirspurn eftir flugi er alltaf til staðar og minna framboð ýtir þannig undir eftirspurn hjá Icelandair. Gott dæmi um þetta er flugleiðin til Seattle, sem er eitt af gulleggjum Icelandair í dag, en Icelandair hóf einmitt að fljúga þangað eftir að SAS gafst upp á þeim áfangastað vegna mikils tapsreksturs. Stór hluti flotans hjá þessu litla flugfélagi, Icelandair, er svo aftur á leigu þannig að sveigjanleiki félagsins er meiri en ella.“