Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 1,19% í 3,9 milljarða viðskiptum sem voru í kauphöllinni í dag, og fór hún upp í 1.943,59 stig.

Einungis tvö félög lækkuðu í virði í viðskiptum dagsins, mest Icelandair sem lækkaði um 1,80% í 167 milljón króna viðskiptum og fór gengi bréfa félagsins niður í 9,82 krónur. Hitt félagði sem lækkaði í virði var Reitir sem lækkuðu um 0,13%, niður í 76,0 krónur, í um tvöfalt meiri viðskiptum, eða fyrir 326 milljónir.

Mestu viðskiptin voru með bréf Arion banka, eða fyrir 666 milljónir króna, og hækkaði gengi bréfa félagsins jafnframt mest, eða um 4,23%, upp í 74,0 krónur. Næst mest hækkaði gengi bréfa Marel, eða um 1,95%, í 271 milljóna viðskiptum og er gengi þess nú 522,0 krónur.

Krónan styrktist gagnvart engilsaxnesu löndunum

Krónan styrktist gagnvart gjaldmiðlum Bandaríkjanna, Bretlands, Japans og Sviss, en veiktist gagnvart evrunni og krónum Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs.

Veiktist Bandaríkjadalur mest gagnvart krónunni, eða um 0,23%, og fæst hann nú á 118,43 krónur, en Norska krónan styrkti sig mest gagnvart þeirri íslensku, eða um 0,57% og fæst hún nú á 13,851 íslenska krónu.