Hagnaður Arion banka á fyrri helming ársins 2016 nam 9,8 milljörðum króna samanborið við 19,3 milljarða króna á sama tímabili 2015. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri bankans.

Heildareignir námu 1.035,0 milljörðum króna í lok júní samanborið við 1.011,0 milljarða króna í árslok 2015 og eigið fé hluthafa bankans nam 199,2 milljörðum króna í lok júní, samanborið við 192,8 milljarða króna í árslok 2015.

Arðsemi eigin fjár var 9,5% samanborið við 22,8% fyrir sama tímabil árið 2015. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 2,8% samanborið við 9,8% á fyrri helming ársins 2015.

Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 2,8 milljörðum króna samanborið við 7,8 milljarða á fyrri helming ársins 2015. Efnahagur bankans telst nokkuð sterkur og hafa stjórnendur lagt áherslu á að tryggja góða lausafjárstöðu í aðdraganda afnáms fjármagnshafta.

Eiginfjárhlutfall bankans í lok júní var 27,8% en var 24,2% í árslok 2015. Hlutfall eiginfjárþáttar A hækkaði og nam 26,8% samanborið við 23,4% í árslok 2015.