Arion banki hagnaðist um 17,1 milljarð króna á síðasta ári. Þetta er sex milljörðum meira en árið 2011. Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, segir afkomuna vel viðunandi ársuppgjör og í takt við væntingar.

Í uppgjörinu kemur fram að rekstrartekjur námu 44,8 milljörðum króna í fyrra samanborið við 33,3 milljarða árið 2011. Aukninguna má rekja til nokkurra liða og eru þar stærstir; hreinar vaxtatekjur sem hækka, virðisrýrnun útlána er minni og tekjur af hlutdeildarfélögum aukast sem og aðrar tekjur. Þá námu hreinar vaxtatekjur 27,1 milljarði króna samanborið við 23,4 milljarða króna árið 2011. Aukningin er einkum tilkomin vegna stærra lánasafns eftir kaup bankans á íbúðalánasafni frá Kaupþingi.

Hærri skattur vegur þungt

Þá kemur fram í uppgjöri Arion banka að niðurfærsla vegna gengislána í kjölfar dóma Hæstaréttar nam 5,7 milljörðum króna í fyrra sem er talsverður samdráttur á milli ára en niðurfærslan nam 13,8 milljörðum króna árið 2011.

Þá nam arðsemi eigin fjár 13,8% en hún var 10,5% í hittifyrra. Arðsemi af reglulegri starfsemi var 10,6% samanborið við 11,2% árið 2011. Eiginfjárhlutfall Arion banka nam um áramótin 24,3% samanborið við 21,2% í árslok 2011. Útlán til viðskiptavina í lok tímabilsins námu 566,6 milljörðum króna og eru þau nánast óbreytt frá fyrra ári. Þá námu heildareignir Arion banka 900,7 milljörðum króna um áramótin síðustu samanborið við 892,1 milljarð í árslok 2011. Eigið fé bankans í lok síðasta árs var 130,9 milljarðar króna miðað við 114,6 milljarða um þarsíðustu áramót.

Í uppgjörinu er talið til að launakostnaður hækkar um 11% milli ára og segir í því að þungt vegi nýr 5,45% skattur á laun starfsmanna fjármálafyrirtækja.