Arion banki hefur leyst til sín 492 íbúðir síðan í ársbyrjun 2009 og fram í febrúar síðastliðinn. Meirihluti íbúðanna eða 407 voru í eigu einstaklinga. Hinar íbúðirnar 85 voru í eigu félagana.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svari Haraldar Guðna Eiðssonar, forstöðumanns samskiptasviðs bankans, við spurningum netmiðilsins Spyr.is .

Bankarnir, Íbúðalánasjóður og Drómi, félagið sem var stofnað utan um kröfur SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans, voru spurðir að því hversu margar íbúðir hafi verið teknar yfir frá 1. janúar árið 2009 og til loka febrúar á þessu ári. Fram kemur í svari bankans að hann hafi tekið yfir 492 íbúðir.

Fram kemur í svari Haraldar að árið 2009 hafi bankinn leyst til sín 88 íbúðir, þar af 66 íbúðir einstaklinga og 22 íbúðir félaga; árið 2010 hafi bankinn leyst til sín 127 íbúðir, þar af 95 íbúðir einstaklinga og 32 íbúðir félaga. Ári síðar leysti bankinn til sín 92 íbúðir, þar af 81 íbúðir einstaklinga og 11 íbúðir félaga. Í fyrra tók bankinn svo yfir 171 íbúð, þar af 152 íbúðir einstaklinga og 19 íbúðir félaga. Það sem af er þessu ári, þ.e. í janúar og febrúar, tók bankinn yfir 14 íbúðir, þar af 13 íbúðir einstaklinga og eina íbúð félaga.