Arion banki hefur samið við slitastjórn þrotabús Kaupþings um kaup á íbúðalánasafni sem fram til þessa hefur verið í sérstökum sjóði. Safnið er metið á 120 milljarða króna. Samkomulagið nær til fjármögnunar lánanna með yfirtöku sértryggðra skuldabréfa.

Íbúðalánasafn Arion banka nemur nú um 200 milljörðum króna.

Í tilkynningu frá Arion banka kemur fram að þegar Arion banki var reistur á grunni Kaupþings hafi hann yfiretkið hluta þeirra íbúðalána sem verið höfðu í eigu Kaupþings. Stærsti hluti íbúðalánasafnsins hafi hins vegar áfram verið í sjóði í eigu Kaupþings.

Viðskiptin fela ekki í sér neina breytingu fyrir lánþegar og viðskiptavini bankans.

Skrá sértryggð skuldabréf á markað

Sértryggðu skuldabréfin voru gefin út á árunum 2006 til 2008 til fjármögnunar á íbúðalánum. Arion banki mun auka langtímafjármögnun sína um rúma 120 milljarða króna vegna þessa. Sértryggðu skuldabréfin verða skráð í kauphöll síðar á þessu ári, samkvæmt tilkynningu frá bankanum.

Svigrúm til afskrifta fullnýtt

Þá kemur fram í tilkynningunni að við yfirtöku Arion banka á íbúðalánum frá Kaupþingi í október 2008 og í janúar 2010 hafi verið veittur að meðaltali 21% afsláttur af verðtryggðum lánum sem endurspeglaði meðal annars stöðu lánasafnsins og væntingar um þær afskriftir sem framkvæma þyrfti. Bankinn hafi fullnýtt svigrúmið sem afslátturinn veitti honum til afskrifta, og gott betur. Enginn slíkur afsláttur er veittur við kaupin nú þar sem gæði lánasafnsins eru mjög mikil, að því er fram kemur í tilkynningunni.