*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 13. mars 2020 17:17

Arion frestar arðgreiðslu og lækkar vexti

Breytilegir íbúðalánavextir bankans lækka um jafnmikið og nam lækkun seðlabanka. Arðgreiðslu hugsanlega frestað.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Arion banki hefur ákveðið að lækka vexti í kjölfar stýrivaxtalækkunar Seðlabanka Íslands á miðvikudag, og munu óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir bankans lækka um jafnmikið og nam stýrivaxtalækkuninni, um 50 punkta, eða 0,5 prósentustig.

Jafnframt hefur bankanum borist beiðni hluthafa sem ráða yfir meira en þriðjungi hlutafjár bankans um frestun ákvörðunar á aðalfundi um útgreiðslu 10 milljarða arðs til hluthafanna um tvo mánuði, en ákvörðun um það verður tekin á aðalfundi bankans þriðjudaginn 17. mars næstkomandi.

Er beiðnin sögð vera í takt við tilmæli Seðlabanka Íslands um að fjármálafyrirtæki endurskoði arðgreiðslutillögur í ljósi óvissu í efnahagsumhverfinu vegna útbreiðslu kórónaveirunnar Covid 19.

Helstu inn- og útlánsvextir Arion banka munu breytast daginn áður, eða þann 16. mars næstkomandi, en Landsbankinn lækkaði sína vexti samdægurs og stýrivaxtalækkun Seðlabankans þó hann lækkaði breytilega vexti íbúðalána um 10 punktum minna.

Helstu breytingar hjá Aron banka nú eru eftirfarandi:

  • Óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir lækka um 0,50% og verða 4,49%
  • Verðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir lækka um 0,30% og verða 3,19%
  • Fastir 5 ára óverðtryggðir og verðtryggðir íbúðalánavextir lækka um 0,30%
  • Almennir óverðtryggðir kjörvextir lækka um 0,30% og almennir verðtryggðir kjörvextir lækka um 0,20%
  • Yfirdráttarvextir og vextir greiðsludreifinga lækka um 0,30% - 0,50%
  • Vextir bílalána lækka um 0,30% - 0,50%
  • Breytilegir innlánavextir bankans munu í mörgum tilfellum haldast óbreyttir þrátt fyrir stýrivaxtalækkun en þó munu vextir nokkurra innlánareikninga lækka um 0,05% - 0,50%

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur bæði Arion banki með því að bjóða viðskiptavinum þriggja mánaða frestun afborgana íbúðalána sem og Íslandsbanki sem býður viðskiptavinum sem verða fyrir mestum efnahagslegum áhrifum af útbreiðslu Covid 19 kórónaveirunnar frá Wuhan í Kína álíka tilslökunum þar með komið til móts við aðgerðir stjórnvalda sem hafa sett á almennt samkomubann frá og með mánudeginum komandi, sama dag og vextirnir lækka hjá Arion banka.