Arion banki hefur tilkynnt um lækkun breytilegra vaxta í kjölfar stýrivaxtalækkunar Seðlabankans, en breytingarnar taka gildi föstudaginn 11. desember.

Breytilegir innlánsvextir bankans munu í mörgum tilfellum haldast óbreyttir en vextir nokkurra innlánsreikninga lækka um 0,05 til 0,25 prósentustig.

Breytilegir útlánavextir lækka um 0,10 til 0,25 prósentustig, en mest lækka yfirdráttarvextir úr 8,75% í 8,5%. Breytilegir vextir verðtryggðra íbúðalána lækka um 0,20 prósentustig en breytilegir vextir óverðtryggðra íbúðalána lækka um 0,10 prósentustig. Þá lækka kjörvextir og kjörvextir bílalána um 0,10 prósentustig.

Íslandsbanki og Landsbankinn lækkuðu breytilega vexti sína fyrr í mánuðinum. Fastir vextir bankanna á nýjum lánum hafa ekki lækkað undanfarið, en bent hefur verið á að stýrivaxtalækkanir séu ekki að skila sér í langtímavexti.

Í því samhengi hefur verið kallað eftir magnbundinni íhlutun Seðlabankans, sem Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri hefur ekki gefið mikið fyrir fram að þessu en hann hefur þó boðað að næsta ár verði ár peningaprentunar.