Arion banki leiðréttir ný neytendalán vegna rangrar vísitölu neysluverðs. Hagstofa Íslands vanreiknaði neysluverðsvísitölu sem var leiðrétt nú í september. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Í tilkynningunni segir: „Í mars urðu Hagstofunni á mistök við útreikning á neysluverðsvísitölunni sem leiðrétt voru nú í  september. Hagstofan leiðrétti aðeins septembergildi vísitölunnar en ekki eldri gildi. Hefði þessi leiðrétting ekki komið til, hefði mánaðarbreyting vísitölunnar í september verið 0,21% í stað 0,48%. Mismunurinn er 0,27 prósentustig.

Almennt hafa þessi mistök Hagstofunnar hverfandi áhrif á viðskiptavini bankans og í raun hafa þau jákvæð áhrif á viðskiptavini með eldri verðtryggð lán. Áhrifin eru hins vegar neikvæð á ný neytendalán sem voru tekin þegar vísitalan var ekki rétt, en stærsti hluti þeirra er íbúðalán. Arion banki mun því taka tillit til leiðréttingar Hagstofunnar um næstu mánaðarmót og leiðrétta vísitölubundna höfuðstólshækkun þeirra neytendalána sem tekin voru þegar vísitalan var röng. Þessi aðgerð er umfram skyldur bankans en við teljum það sanngirnismál að neytendur, sem tóku lán á þessu tímabili, beri ekki kostnað af þessum mistökum Hagstofunnar.

Leiðréttingin mun eiga sér stað í nóvember og verða þeir viðskiptavinir sem leiðréttingin nær til upplýstir sérstaklega um hana og áhrif hennar á lán þeirra.“