Miklar breytingar verða á útibúaneti Arion banka á næstu vikum og mánuðum víða um land til að aðlaga netið að nýjum stafrænum þjónustuleiðum. Til stendur að loka útibúum á nokkrum stöðum og sameina öðrum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka.

„Ekki verður hjá því komið að þessum breytingunum fylgi ákveðið rask fyrir viðskiptavini en bankinn mun kappkosta að lágmarka það eins og frekast er unnt,“ segir í tilkynningu bankans.

Með breytingunum verður lögð verður áhersla á sveigjanlegri þjónustutíma, betra aðgengi að hraðbönkum og öðrum sjálfsafgreiðslutækjum, aukinn stuðning við stafrænar þjónustuleiðir og gott aðgengi að fjármálaráðgjöf.

„Þá er einnig stefnt að því að nýta betur húsnæði bankans, fækka fermetrum og auka hagkvæmni í rekstri,“ segir í tilkynningu

Starfsemi útibúa Arion banka í Garðabæ og Hafnarfirði verður í sumar að hluta til sameinuð þjónustukjarna bankans á Smáratorgi í Kópavogi. Á sama tíma mun bankinn opna nýtt útibú í alfaraleið.

Í maí mun útibú Arion banka í Mosfellsbæ sameinast þjónustukjarna bankans við Bíldshöfða í Reykjavík. Jafnframt mun útibú bankans á Ólafsfirði sameinast útibúinu á Siglufirði. Áfram verða alhliða hraðþjónustubankar í Mosfellsbæ, Firði í Hafnarfirði og á Ólafsfirði, þar sem meðal annars er hægt að taka út og leggja inn seðla, greiða reikninga og millifæra.

Útibú Arion á Akureyri, Blönduósi, Hellu og í Vík í Mýrdal munu öll flytja í nýtt húsnæði.

Þá mun útibú Arion banka við Hagatorg í Vesturbæ taka gagngerum breytingum. Loka verður útibúinu tímabundið vegna framkvæmda en á þeim tíma verða hraðbankar aðgengilegir.

Útibú Arion banka í Borgartúni og á Bíldshöfða í Reykjavík og á Smáratorgi í Kópavogi verða efld. Útibúin eru svokallaðir þjónustukjarnar og veita víðtæka fjármálaþjónustu.