ÍMARK hefur veitt íslensku markaðsverðlaunin frá 1991. Þau eru veitt fyrirtækjum sem hafa verið áberandi í markaðsmálum undanfarin tvö ár og sannað þykir að sýnilegur árangur hafi náðst. Við ákvörðun um verðlaunahafa er tekið mið af fagmennsku við markaðsmálin og að fjárhagslegt öryggi sé til staðar. ÍMARK greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Í dag útnefndi ÍMARK markaðsfyrirtæki ársins 2018. María Hrund Marinósdóttir, formaður ÍMARK og markaðsstjóri Borgarleikhússins stýrði dagskránni. Það var frú Eliza Reid sem að afhenti Arion banka verðlaunin. Formaður dómnefndar var Dr. Þórhallur Guðlaugsson, dósent við Háskóla Íslands.

Arion banki, Dominos, NOVA og Nox Medical voru tilnefnd til verðlaunanna, en verðlaunin eru veitt þeim fyrirtækjum sem þykja hafa skarað fram úr í markaðsmálum undanfarin tvö ár og náð árangri.

Dómnefndina skipuðu þau:

  • Dr. Þórhallur Guðlaugsson, dósent við Háskóla Íslands og formaður dómnefndar
  • María Hrund Marinósdóttir, Markaðsstjóri Borgarleikhússins og formaður ÍMARK
  • Magnús Pálsson, Resktrarráðgjafi hjá Markmiði
  • Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu
  • Hreiðar Þór Jónsson, markaðstjóri drykkjarvöru hjá Ölgerðinni
  • Hildur Harðardóttir, framkvæmdastjóri samskipta, notenda og þróunar hjá RÚV
  • Jón Þorgeir Kristjánsson, framkvæmdasjóri ÍMARK

Rökstuðningur dómnefndar:

Arion banki, hefur eins og önnur fjármálafyrirtæki, gengið í gegnum mikinn ólgusjó frá efnahagshruninu haustið 2008 með tilheyrandi krefjandi verkefnum. Þannig hefur bankinn farið í gegnum mikið innra starf, gert margvíslegar greiningar og mótað markaðsstefnu undir yfirskriftinni „Úr vörn í sókn". Í stefnunni er sérstök áhersla á framtíðina og hefur bankinn sett sér það metnaðarfulla markmið að verða fremsti stafræni bankinn á Íslandi.

Það er mat dómefndar að allt markaðsstarf hafi faglegt yfirbragð. Gerðar eru viðeigandi greiningar á markaðsumhverfinu, mótuð stefna sem tekur mið af þeim veruleika, og útfærsla markaðsstarfsins er fagleg, trúverðug og virðist líkleg til árangurs.