Á aðalfundi Arion banka í gær var samþykkt að greiða íslenska ríkinu 6,5 milljarða króna í arð í formi víkjandi láns eða víkjandi skuldabréfs. Aðrgreiðslan er með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins. Þá var einnig samþykkt að hlutaðeigandi aðilar geti komið sér saman um annað form á arðgreiðslunni.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að arðgreiðslan er í samræmi við samkomulag sem gert var þegar kröfuhafar, eigendur Kaupþings, eignuðust 87% hlut í Arion banka þann 8. Janúar 2010. Ríkið heldur um 13% hlut í bankanum.

Einnig kemur fram að ekki verður greiddur út arður að öðru leyti vegna ársins 2010. Aðrir eigendur en íslenska ríkið fá því ekki greiddan arð vegna síðasta árs. Hagnaður bankans á síðasta ári nam 12,6 milljörðum króna eftir skatta. Arðgreiðslan til íslenska ríkisins nemur því rúmlega helmingi af hagnaði ársins.

Ef af arðgreiðslunni verður gefur Arion banki út víkjandi skuldabréf til íslenska ríkisins. Með þessari útgreiðsluaðferð helst eiginfjárhlutfall bankans óbreytt þrátt fyrir arðgreiðsluna.