Eignabjarg ehf., dótturfélag Arion banka hf. hefur ákveðið að bjóða til sölu að lágmarki 10% eignarhlut í Högum hf. Fjárfestingabankasvið Arion banka hefur umsjón með sölu hlutanna, sem mun fara fram í lokuðu útboði í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka. Gert er ráð fyrir að útboðinu ljúki fyrir 1. mars næstkomandi.

Í tilkynningunni kemur fram að stærð þess eignarhlutar sem seldur verður, mun ráðast af verðtilboðum þeirra fjárfesta sem leitað verður til, en núverandi eignarhlutur Eignabjargs nemur 19,3% í Högum. Þá kemur fram að Fjármálaeftirlitið hafi staðfest að það geri ekki athugasemd við að bankinn haldi eftir upp að 10% eignarhlut eftir söluna.

Sátt bankans við Samkeppniseftirlitið varðandi yfirtöku bankans á 95,7% hlutafjár í Högum er enn í gildi en samkvæmt samkomulagi við Samkeppniseftirlitið ber bankanum að ljúka sölu á hinum yfirtekna hlut fyrir 30. júní næstkomandi.

Sem kunnugt er var félagið nýlega skráð á markað í Kauphöllinni. Hér til hliðar má finna eldri fréttir um sölu sölu Arion banka á Högum og fleiri fréttir tengdar Högum.