Undirritaður hefur verið samningur um sölu á B.M. Vallá ehf. frá Eignabjargi ehf., dótturfélagi Arion banka, til BMV Holding ehf. félags í eigu erlendra og íslenskra fjárfesta.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka en hluthafar BMV Holding eru Norcem á Íslandi ehf., Björgun ehf., Jarðefnaiðnaður ehf., Suðurhraun ehf.,  Hlér ehf., Harðbakur ehf. og Suðurverk hf.

Í tilkynningu sem Arion banki sendi frá sér þann 31. mars síðastliðinn og í auglýsingum sem birtar voru í kjölfarið, var B.M. Vallá auglýst til sölu. Í kjölfar kynningar á félaginu var kallað eftir tilboðum frá áhugasömum fjárfestum og á þeim grundvelli var ákveðið að ganga til viðræðna við fyrrgreinda aðila, sem áttu hagstæðasta tilboðið. Þeim viðræðum er nú lokið með undirritun samnings um kaup þeirra á B.M. Vallá.

Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.