Fram Foods ehf., sem er í eigu Arion banka, hefur selt dótturfélag sitt Fram Foods AB í Svíþjóð til sænska félagsins Domstein Sverige AB, en bæði félögin eru með höfuðstöðvar í Lysekil í Svíþjóð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka en fyrirtækjaráðgjöf Arion sá um söluferlið.

Þar kemur fram að við kaupin greiðir Domstein Sverige AB hálfa milljón evra fyrir allt hlutafé félagsins. Á árinu 2011 námu tekjur Fram Foods AB um 18 milljónum evra en hjá félaginu starfa rúmlega 50 manns.

Fram Foods AB sérhæfir sig í framleiðslu og sölu á kældum sjávarafurðum undir eigin vörumerkjum sem og vörumerkjum samstarfsaðila. Fram Foods var upphaflega hluti af Bakkavarar-samstæðunni en árið 2003 keyptu nokkrir starfsmenn reksturinn að stórum hluta og hófu sjálfstæðan rekstur. Bankinn tók félagið yfir fyrir tveimur árum og setti það í söluferli í mars síðastliðnum. Í tilkynningu frá Arion í júlí sl. kom fram að bankinn myndi halda  áfram að selja önnur dótturfélög matvælafyrirtækisins..