Matvælafyrirtækið Fram Foods í Reykjanesbæ seldi í dag dótturfélags sitt Boyfood í Finnlandi til finnska félagsins Felix Abba. Fram Foods var upphaflega hluti af Bakkavarar-samstæðunni en árið 2003 keyptu nokkrir starfsmenn reksturinn að stórum hluta og hófu sjálfstæðan rekstur. Bankinn tók félagið yfir fyrir tveimur árum og setti það í söluferli í mars síðastliðnum. Fram kemur í tilkynningu frá Arion banka að hannn muni halda  áfram að selja önnur dótturfélög matvælafyrirtækisins.

Helstu eigendur Fram Foods árið 2009 samkvæmt ársreikningi voru Bakkavör Group, með 31% hlut, og Kaupþing, sem átti 26%.

Helstu afurðir Fram Foods eru kavíar og síld sem fyrirtækið selur á Norðurlöndunum. Boyfood sérhæfir sig í framleiðslu og sölu á kældum sjávarafurðum. Félagið framleiðir síldarafurðir undir sínu eigin vörumerki Boy og vörumerkjum samstarfsaðila. Afurðir félagsins eru seldar til stærstu verslunarkeðja Skandinavíu.

Samkvæmt uppgjöri Fram Foods árið 2009 hafði fyrirtækið þegar rofið skilmála í tveimur lánasamningum gagnvart Arion banka og hafði eigið fé þess verið neikvætt í tvö ár. Bankinn tók yfir 56,17% hlut í félaginu árið 2010. Að lokum rann það allt inn í bankann og heyrir nú undir Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, sem heldur utan um fyrirtækið sem bankinn hefur tekið yfir.

Fram kemur í tilkynningu frá Arion banka að í fyrra hafi tekjur Boyfood numið um 18 milljónum evra,  en hjá félaginu starfa um 56 manns. Heildarvirði viðskiptanna nú nemur 9,6 milljónum evra, jafnvirði 1,5 milljarða króna.