*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 1. nóvember 2011 20:31

Arion Banki selur í Högum

Félagið skráð á markað fyrri hlutann í desember.

Ritstjórn
Arion baki hyggst selja í Högum fyrir þrjár milljarða.
Haraldur Jónasson

Arion Banki sem á um 64% hlut í Högum hyggst selja um 20-25% hlut í félaginu. Verður hluti seldur fagfjárfestum en hluti verður seldur almenningi en ekki liggur hvernig skiptingin verður. Stefnt er að því að útboðið fari fram fyrstu vikuna í desember og reikna má með að söluverð hlutarins geti verið nálægt þremur milljörðum króna eða þar um bil. Vinna við útboðslýsingu stendur nú yfir en að því loknu verða Hagar skráðir á markað sem gæti þá orðið strax fyrrihlutann í desember.

Ganga má að því sem gefnu að Búvellir, sem keyptu 34% hlut í Högum í upphafi ársins muni nýta sér 10% kauprétt sinn og eignist þannig um 44% í Högum. Stærstu eigendur Búvalla eru Hagamelur ehf. en það félag er í eigu Hallbjörns Karlssonar, Árna Haukssonar, Sigurbjörns Þorkelssonar og Tryggingamiðstöðvarinnar og lífeyrissjóða. Hlutur Arion banka í Högum, eftir útboðið, gæti því verið í kringum 30%.

Uppfært klukkan 22:18

Arion banki hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:

„Stjórn Haga hf. hefur óskað eftir að hlutir í félaginu verði teknir til viðskipta á aðalmarkaði Nasdaq OMX Iceland. Stefnt er að því að viðskipti með hluti í félaginu hefjist í Kauphöllinni í desember næstkomandi, í kjölfar almenns hlutafjárútboðs. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hefur umsjón með útboðinu og skráningu félagsins í Kauphöll.

Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, hyggst selja 20-30% hlut í verslunarfyrirtækinu Högum hf. með almennu útboði. Því verður bæði beint að fagfjárfestum og almennum fjárfestum, en lágmarksáskrift verður að andvirði 100 þúsund krónur og hámarksáskrift að andvirði 500 milljónir króna. Sölutímabil er áætlað 5.-8. desember næstkomandi. Óskað verður eftir tilboðum á fyrirfram ákveðnu verðbili sem verður tilkynnt ásamt fyrirkomulagi útboðsins þegar útboðs- og skráningarlýsing verður gefin út, en það er fyrirhugað nú í lok nóvember.

Markmiðið er að útboðið marki grunn að góðri dreifingu á eignarhaldi Haga hf., og er þá bæði horft til þess að almenningur og fagfjárfestar eignist hlut í félaginu, en jafnframt er markmið seljandans að fá ásættanlegt verð fyrir eign sína í Högum.“

Stikkorð: Arion banki Hagar