*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Innlent 16. febrúar 2021 16:51

Arion banki á skriði

Gengi hlutabréfa bankans hefur hækkað um nærri þriðjung í þessum mánuði. Icelandair hækkaði um tæplega 6%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Gengi hlutabréfa Arion banka hækkaði um 5,86% í viðskiptum dagsins í Kauphöllinni. Samanlögð velta viðskipta með hlutabréf félagsins nam ríflega 2 milljörðum króna. Hefur gengi bréfa bankans hækkað um tæplega þriðjung í febrúar. 

Samanlögð velta allra viðskipta dagsins nam 4,4 milljörðum króna og stóðu viðskipti með bréf bankans undir nærri helmingi af heildarveltu viðskipta. Gengi úrvalsvísitölunnar OMXI10 hækkaði um 1,75% og stendur í kjölfarið í 2.983,7 stigum.

Fast á hæla Arion banka fylgdi Icelandair, en gengi hlutabréfa flugfélagsins hækkaði um 5,74% í 260 milljóna króna veltu. 

Grænt var yfir að litast í viðskiptum dagsins og lækkaði einungis gengi 5 félaga. Umrædd félög eru Eik, Iceland Seafood, Reitir, Skeljungur og TM. Umrædd félög geta þó andað rólega þar sem umræddar gengislækkanir voru allar nokkuð undir 1%.

Stikkorð: Arion banki Kauphöll Icelandair Nasdaq