Greiningardeild Arion banka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig þegar nefndin tilkynnir vaxtaákvörðun sína 14 júní nk. Telur greiningardeildin að vaxtaákvörðunin verði tvísýn en í þetta skiptið  stendur valið ekki á milli óbreyttra vaxta og 25 punkta lækkunar heldur á milli 25 og 50 punkta lækkunar.

Vegna verulegrar gengisstyrkingar milli funda peningastefnunefndar eru taldar litlar líkur á óbreyttum vöxtum. Hefur gengi krónunar  styrkst um 2,3% frá síðasta fundi og voru verðbólguhorfur þá samt sem áður góðar. „Einnig sjáum við fram á að hægja taki á hækkunum húsnæðisverðs á næstunni. Þá má nefna að landsframleiðslutölurnar sem voru birtar í morgun eru í mýkri kantinum en við munum fjalla nánar um þær síðar í dag. Síðast en ekki síst voru að okkar mati skýrar vísbendingar um vaxtalækkun í síðustu fundargerð peningastefnunefndar" segir í spánni.

Segir greiningardeildin að síðasta fundargerð peningastefnunefndar hafi verið um margt áhugaverð og mátti greina nokkuð skýrari framsýna leiðsögn en þekkst hefur undanfarinn misseri. „Út frá fundargerðinni má lesa að a.m.k. hluti nefndarinnar sé á þeirri skoðun að lækka megi vexti nokkuð meira án þess að það ógni verðstöðugleika. Þá kusu allir nefndarmenn að lækka vexti um 25 punkta, sem er mun meiri samhljóður en við áttum von á."