Arion banki, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins verða eigendur meirihluta hlutafjár Skipta í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar á skuldum félagsins. Samanlagður hlutur þeirra þriggja nemur 63,5%. Arion banki er strsti hluthafinn með 38,3% hlut.

Skipti er m.a. móðurfélag Símans, Skjásins, Mílu og fleiri fyrirtækja.

Hluthafarnir 128

Fram kemur í tilkynningu frá Skiptum að í gær (13. júní) hafi félagið uppfyllt öll skilyrði vegna samnings um fjárhagslega endurskipulagningu skulda félagsins, dags. 5. apríl 2013,  með undirritun lánasamnings við Arion banka upp á 19 milljarða króna og með móttöku áskriftarloforða frá fagfjárfestum að nýjum skuldabréfaflokki félagsins upp á átta milljarða.

Það hafði í för með sér að þann 20. júní 2013 verður öllum skuldabréfum í skuldabréfaflokknum SIMI 06 01 skipt fyrir hlutafé í félaginu, öllum kröfum Arion banka, sem ekki eru hluti af núverandi forgangsláni félagsins, verður skipt fyrir hlutafé í félaginu og fær hver kröfuhafi félagsins sem er aðili að framangreindum samningi greiddar tvær milljónir króna. Þá er gert ráð fyrir að núverandi forgangslán félagsins verði greitt upp að fullu þann 5. júlí 2013 og með þeirri greiðslu lýkur fjárhagslegri endurskipulagningu Skipta.

Fram kemur í tilkynningunni að hluthafar Skipta verða 128. Á meðal annarra tíu stærstu hluthafa verða Gildi lífeyrissjóður, Íslandssjóðir, Almenni lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður verkfræðinga, Sameinaði Lífeyrissjóðurinn, Festa lífeyrissjóður og Stafir lífeyrissjóður.