Arion Banki hefur stefnt Boga Pálssyni, fyrrverandi forstjóra Toyota, í Bandaríkjunum vegna viðskipta með svefnrannsóknarfyrirtækið Flögu. Bankinn telur Boga hafa blekkt bankanna og gerst sekur um fjársvik þegar hann keypti skuldir fyrirtækisins með afslætti af bankanum í fyrra. Bogi var á sama tíma með sölu- og ráðgjafasamning við Arion banka. Bankinn vill rifta kaupum Boga á skuldunum.

Flaga var skráð á hlutabréfamarkað á árunum 2003 til 2008. Undir lokin voru hlutabréfin sögð orðin lítils virði.

Bogi var stjórnarformaður Flögu og einn af helstu hluthöfum fyrirtækisins. Flaga rambaði á barmi gjaldþrots sökum skulda eftir að Kaupþing og Exista fóru á hliðina. Skuldir félagsins við bankann voru frystar í 11 milljónum dala í hruninu og tók Nýja Kaupþing reksturinn yfir.

Fjallað er um stefnuna í DV í dag. Þar segir m.a. Bogi hafi verið með sölu- og ráðgjafarsamning við Arion banka um tæplega þriggja ára skeið en samkvæmt honum hafi Bogi skuldbundið sig til að reyna að selja Flögu eða dótturfyrirtæki fyrir hönd bankans upp í skuldir. Samningurinn var liður í fjárhagslegri endurskipulagningu Flögu. Í samningi um endurskipulagningu Flögu átti félagið að byrja að greiða Arion banka af lánum 15. október í fyrra og greiða af höfuðstóli lána í janúar á næsta ári.

Í september í fyrra keypti bandaríska svefnrannsóknafyrirtækið Natus Emblu Systems, eitt af af dótturfélögum Flögu, fyrir 16 milljónir dala, rúmar 1.850 milljónir króna.

DV hefur upp úr stefnunni að þremur vikum áður en Embla Systems var seld keypti Bogi skuldir Flögu af Arion banka fyrir um fjórar milljónir dala, tæplega hálfan milljarð króna. Hann hafi svo með sölunni til Natus hagnast um 12 milljónir dala, tæpa 1,5 milljarða króna.