Arion banki hefur tekið upp kaupaukakerfi fyrir um hundrað starfsmenn bankans. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.

Kaupaukakerfinu var á komið á í lok sumars en innleiðing þess hefur verið í skoðun um nokkurt skeið. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í apríl þá leyfði starfskjarastefna bankans slíkar greiðslur en kaupakerfi hafði þá ekki verið virkjað innan bankans. Stefnir, dótturfélag bankans hafði þá tekið upp kaupaukakerfi innan félagsins.

Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að hluti af ástæðunni fyrir að kaupaukakerfið er nú tekið upp innan bankas að flestir samkeppnisaðilar bankans hafi tekið upp hvatakerfi í einhverri mynd og því sé bankinn að aðlaga sig að starfsumhverfi sínu og styrkja stöðu sína í samkeppni um starfsfólk. Kaupaukarnir geta ekki numið meira en 25% af árslaunum en kaupaukakerfið nær ekki til starfsfólks áhættustýringar,greiningardeildar, regluvörslu og innri endurskoðunar.

Íslandsbanki er með kaupaukakerfi fyrir framkvæmdastjórn bankans á meðan Landsbankinn afhenti starfsmönnum bankans bréf í bankanum fyrr í sumar. Þá hefur Viðskiptablaðið áður fjallað um kaupaukagreiðslur fjármálafyrirtækja á borð við MP banka, Arctica Finance og H.F. Verðbréfa.