Arion banki undirbýr skuldabréfaútgáfu, þá fyrstu sem íslenskur banki ræðst í eftir hrun. Um er að ræða útgáfu svokallaðra sértryggðra eða varinna skuldabréfa (e. covered bonds) og liggja þá ákveðin veð fyrir skuldabréfunum, fyrst og fremst húsnæðislán. Sem dæmi um lánasafn sem stefnt er að verði lagt sem veð eru óverðtryggð húsnæðislán, sem bankinn hóf nýlega að bjóða viðskiptavinum. Barclays banki hefur verið Arion til aðstoðar við undirbúning.

Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion, segir að stefnt sé að fyrstu útgáfu á fjórða ársfjórðungi. Innan bankans hefur verið unnið að ramma útgáfunnar í samstarfi við Fjármálaeftirlitið og hefur gengið vel að sögn Stefáns. Þegar rammi útboðanna er tilbúinn verði ráðist í fyrstu útgáfu. Vonir standa til að það verði í október.

Lög um sértryggð skuldabréf eru frá árinu 2008 og veitir Fjármálaeftirlitið heimild til slíkrar útgáfu, að ýmsum skilyrðum uppfylltum, samkvæmt svari FME við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. Slík heimild hefur ekki verið veitt frá hausti 2008. Tvær umsóknir eru til meðferðar hjá FME, önnur frá Arion. Ein heimild til útgáfu sértryggðra skuldabréfa hefur verið veitt, skömmu eftir að lögin tóku gildi. Ekkert varð hins vegar af þeirri útgáfu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.