Arion banki stefndi nýverið félaginu Bakkabræður Holding B.V. til greiðslu tveggja skuldabréfalána sem félagið fékk hjá Kaupþingi. Eftir að bankinn fór í þrot eignaðist Arion banki kröfuna á hendur félaginu. Eigendur Bakkabræðra Holding B.V. eru bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, sem löngum hafa verið kenndir við Bakkavör.

Félagið hélt m.a. utan um eignarhluti þeirra í Exista, stærsta hluthafa Kaupþings sem aftur var aðallánveitandi Bakkabræðra Holding B.V. Exista átti jafnframt Símann, VÍS, Lýsingu og stóran hlut í Bakkavör. Fram kemur í Rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna að árið 2008 hafi skuldir Bakkabræðra Holding B.V. gagnvart Kaupþingi numið samtals rétt tæpum 22 milljörðum króna.

Enginn mætti fyrir hönd Bakkabræðra Holding B.V. til að verjast í málinu þegar upphaflega átti að taka málið fyrir og fékk Arion banki útivistardóm. Þeir Ágúst og Lýður telja að stefnan hafi ekki verið löglega birt, þeir ekki vitað af henni og fóru þeir því fram á endurstefnubeiðni.

Beiðnin verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Um tvö mál Bakkabræðra Holding B.V. gegn Arion banka er að ræða en eitt lán er undir í hvoru máli.

Veðin urðu einskis virði

DV hefur fjallað ítarlega um félagið Bakkabræður Holding B.V. Í umfjöllun blaðsins í október í fyrra sagði að veð lána félagsins hafi verið hlutabréf sem félagið hafði keypt. Persónulegar ábyrgðir þeirra Ágústar og Lýðs voru hins vegar engar. Þá sagði blaðið að þegar eignir Kaupþings voru verðmetna og fluttar yfir í Nýja-Kaupþings eftir bankahrunið í október árð 2008 hafi lánin til Bakkabræðra Holding B.V. verið færð á núll krónur, þ.e.a.s. búist var við að þau væru töpuð.

Þá bendir blaðið á að Bakkabræður Holding B.V. hafi fengið tæpa níu milljarða króna í arð frá félögum í eigu þess hér á landi fyrir hrun. Blaðið sagði jafnframt að félagið hafi fjármagnað hlutabréfakaup sín með lánum frá Kaupþingi. Arðurinn hafi ekki verið nýttur til greiðslu lánanna heldur hafi eigendur félagsins tekið hann úr félaginu. Þegar hlutabréf í eigu Bakkabræður Holding B.V. urðu einskis virði eftir október árið 2008 gat Nýja-Kaupþing ekki innheimt kröfuna á hendur félaginu og var ekki hægt að sækja arðgreislurnar.

Blaðið sagði svo frá því í apríl síðastliðnum að Arion banki hafi reynt að ganga á félagið en það ekki tekist.