Arion banki greiðir inn á skuldabréf í eigu Kaupþings, sem bankinn gaf út í byrjun ársins, en það er að andvirði 747,5 milljón Bandaríkjadala, eða um 97 milljarða króna.

Greiðslan, sem nemur rúmum 237 milljónum Bandaríkjadala, eða 27 milljörðum, fer fram 7. desember næstkomandi, og er hún í samræmi við ákvæði um að bankinn greiði inn á bréfið ef hann gæfi út nýtt skuldabréf í annarri mynt.

Það gerði hann í gær, 1. desember þegar hann gaf út skuldabréf að upphæð 300 milljónir evra eða tæpa 37 milljarða íslenskra króna.

Greiðslan sem innt verður af hendi eftir viku kemur til viðbótar við greiðslu frá í maí sem nam tæpum 253 milljónum Bandaríkjadala inn á skuldabréfið, og verður staða þess því eftir þessar tvær greiðslur tæpar 258 milljónir Bandaríkjadala, eða tæpum 29 milljarðar króna.

Útgáfa skuldabréfsins, sem er í eigu Kaupþings, var liður í aðgerðum sem sneru að afnámi fjármagnshafta.