Arion banki hefur ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum, sem eru í fæðingarorlofi og með íbúðarlán hjá bankanum, að breyta greiðslutilhögun lánsins í allt að níu mánuði eða í þann tíma sem á töku fæðingarorlofs stendur.

Í tilkynningu frá bankanum segir að oft sé það svo að við töku fæðingarorlofs lækki ráðstöfunartekjur fjölskyldna. Til að koma til móts við slíkar aðstæður hafi bankinn tekið upp þá nýjung að bjóða viðskiptavinum að lækka mánaðarlegar greiðslur íbúðalána um allt að helming á meðan á töku fæðingarorlofs stendur.

Með þessu móti lækkar mánaðarleg greiðslubyrði meðan fæðingarorlof er tekið, en það sem ógreitt er leggst við höfuðstól lánsins. Skilyrði er að íbúðarlánið sé í skilum og sýna þarf fram á töku orlofs með greiðsluyfirliti frá Fæðingarorlofssjóði.