Arion banki færði á síðasta ári niður virði virði eignarhlutar í hollenska drykkjavöruframleiðandanum Refresco og kröfur á dótturfélag spænska fyrirtækisins Cobega sem bankinn eignaðist við söluna á Vífilfelli um 900 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi EAB 1 ehf., félags í eigu Arion banka sem notað var við söluna á Vífilfelli.

Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.

Þorsteinn M. Jónsson, sem um árabil hefur verið kenndur við Vífilfell, átti drykkjavörufyrirtækið í nafni tveggja félaga en seldi það til Exalba S.A., dótturfélags Cobega, stærsta dreifingaraðila Coca-Cola á Spáni, í skuldauppgjöri við bankann í janúar í fyrra.

Kaupverðið var ekki gefið upp. Í tilkynningu frá Arion banka á sínum tíma sagði að skuldir Þorsteins gagnvart bankanum hafi numið 6,4 milljörðum króna og heildarskuldir Vífilfels 4,5 milljörðum króna.

Í umfjöllun Fréttablaðsins um ársreikning Vífilfells sem sagir að í maí í fyrra hafi félagið greitt lán upp á 5,2 milljarða króna. Á sama tíma var tekið nýtt lán hjá bankanum upp á 1,5 milljarða. Afgangurinn var greiddur með afhendingu á hlut Vífilfells í Ferskur Holding B.V., sem á 5% hlut í Refresco, sem var metinn á 3,3 milljarða króna. Þá fylgdi með 415 milljóna króna greiðsla út úr rekstri Vífilfells. Skuldir Vífilfells lækkuðu úr 7 milljörðum króna í 3,6 milljarða króna í fyrra í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar.

Þá segir að eignarhlutur EAB1 ehf í Refresco sé nú metinn á 2,5 milljarða króna sem er lækkun um 773 milljónir króna.