Bjallan í Kauphöll Íslands hljómaði í fyrsta sinn í rúm þrjú ár í gær, þegar sértryggð skuldabréf útgefin af Íslandsbanka voru tekin til viðskipta. Útgáfan er ekki stór, um 4 milljarðar króna, en heildarheimild bankans í útgáfu skuldabréfaflokksins er 100 milljarðar. Áætlað er að á næstu árum verði árlega gefin út allt að 10 milljarðar til viðbótar af sértryggðum bréfum.

Í síðasta mánuði fékk Arion banki heimild Fjármálaeftirlitsins (FME) til þess að gefa út sértryggð bréf. Væntanleg útgáfa þeirra er samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins langt á veg komin. Í tilkynningu frá bankanum segir að á næstu dögum verði útgáfan kynnt fyrir fjárfestum. Að baki sértryggðra skuldabréfa liggja ákveðnar eignir. Bréf Arion verða tryggð með íbúðalánum í eigu bankans sem veitt hafa verið á árinu 2011. Í dag liggur ekki fyrir hvoru megin við áramótin ráðist verður í útgáfuna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.