Dómur héraðsdóms í máli Datacell ehf. og Sunshine Press Productions ehf. gegn Valitor hf., þar sem síðastnefnda félagið var dæmt til að greiða 1,2 milljarða í skaðabætur vegna lokunar á greiðslugátt til WikiLeaks, varð tilefni til þess að Arion banki sendi frá sér afkomuviðvörun.

Í viðvöruninni segir að niðurstaðan þýði að áhrif óreglulegra liða á afkomu bankans verði neikvæð um samtals 1,2 milljarða á fyrsta ársfjórðungi. Dómurinn einn og sér mun hafa um 600 milljón króna áhrif en að viðbættu gjaldþroti Wow air og sölu bankans á eignarhlut í Farice eru samanlögð áhrif tvöfalt hærri.

Þar segir enn fremur að þegar Arion keypti eignarhlut Landsbankans í Valitor árið 2014 hafi verið ákvæði í samningnum um hlutdeild seljanda í því tjóni sem Valitor gæti orðið fyrir í tengslum við þetta mál.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort Valitor muni áfrýja dómnum til Landsréttar en það er þó talið líklegra en ekki. Ákvörðun um það er í hendi stjórnar félagsins.