*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 6. febrúar 2018 10:19

Arion greiði milljarða í arð fyrir sölu

Stjórn Arion banka hefur lagt til að bankinn fái að kaupa eigin bréf og greiða arð áður en bankinn verði seldur.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Stjórn Arion banka hefur lagt fram tillögu fyrir hluthafafund að bankinn greiði allt 25 milljarða í arð, takist Kaupþingi að selja minnst tveggja prósenta hlut í Arion banka fyrir 15. apríl.

Þá hefur einnig verið lagt fyrir hluthafafundinn, sem fara á fram þann 12. febrúar, að Arion banki fái að kaupa allt að 10% eigin bréfa í bankanum fram til 15. apríl og greiða fyrir allt að 18,8 milljarða króna. Það fé sem nýtt verður til kaupa á eigin bréfum dregst frá væntri 25 milljarða arðgreiðslu bankans.

Kaupverð Arion banka fyrir eigin hluti skal að hámarki nema 94,177 krónum á hlut sem samsvarar um 0,85 krónum fyrir hverja krónu af eigin fé miðað við nýjast uppgjör Arion banka, sem miðast við lok september 2017.

Kaupþing hefur lagt mikið kapp á að selja Arion banka, sem er stærsta óselda eign Kaupþings, sem fyrst og er stefnt á skráningu bankans á markað í vor.

Með arðgreiðslunum lækkar eigið fé Arion banka og því vænt kaupverð bankans þar sem íslenska ríkið á forkaupsrétt á hlutum í Arion banka sé kaupverð undir 0,8 krónum fyrir hverja krónu af eigin fé.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá hefur Kaupþing átt í viðræðum við lífeyrissjóði um kaup á hlut í Arion banka. Tveimur dögum eftir hluthafafundinn, þann 14. febrúar, verður ársuppgjör Arion banka birt.

Fréttablaðið hefur bent á að Kaupþing hafi lagt hart að lífeyrissjóðunum að ganga frá hugsanlegum kaupum fyrir birtingu ársuppgjörsins. Með því móti má miða við eigið fé Arion banka í lok september 2017 en ekki um áramót, og þar með greiða lægra kaupverð án þess að forkaupsréttur ríkisins virkist.

Arion banki er að 57% hlut í eigu Kaupþings í gegnum félagið Kaupskil ehf., Goldman Sachs og þrír vogunarsjóðir eiga samtals nálægt 30% hlut og 13% hlutur í bankanum er í eigu íslenska ríkisins.