Arion banki hyggst undir lok þessa mánaðar endurgreiða ríkissjóði Íslands þriðjung af tæplega 32 milljarða króna víkjandi láni í erlendri mynt sem ríkið lagði bankanum til í desember 2009. Kemur þetta fram í frétt DV. Engin ákvörðun hefur hins vegar verið tekin af hálfu Íslandsbanka um að greiða til baka víkjandi lán sem ríkissjóður veitti bankanum en bókfært virði þess nam ríflega 21 milljarði króna í árslok 2014.

Lánveitingarnar voru veittar til að styrkja eiginfjárstöðu Arion banka og Íslandsbanka, ásamt því að vega á móti gjaldeyrisójafnvægi í efnahagsreikningi þeirra, samhliða því að gengið var frá samkomulagi við skilanefndir Kaupþings og Glitnis um að kröfuhafar myndu óbeint eignast meirihluta hlutafjár í bönkunum.

Voru lánin hluti af margvíslegri fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálafyrirtæki í kjölfar bankahrunsins enda ljóst að slík útgáfa í erlendri mynt – á kjörum undir markaðsvöxtum – var óhugsandi fyrir íslenska banka á þeim tíma. Samanlagt virði þessara víkjandi lána bankanna er í dag um 53 milljarðar króna.

Lánin voru tíu ára eingreiðslubréf en frá og með síðustu áramótum hefur Íslandsbanka og Arion banka verið heimilt að greiða til baka lánin að hluta eða fullu.