*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 8. júní 2021 16:27

Arion hækkað um 180% í Covid

Gengi Arion banka hefur hækkað um 4,8% frá því að hlutafjárútboð Íslandsbanka hófst í gær.

Ritstjórn
Kauphöllin, Nasdaq

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,4% í 4,6 milljarða króna veltu á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar í dag. Þriðjungur veltunnar var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 2,1%. Arion hefur hækkað um 4,8% frá því að hlutafjárútboð Íslandsbanka hófst í gær.

Gengi Arion hefur hækkað verulega undanfarið ár en hækkunin nemur alls 180% frá því í lok mars á síðasta ári og um 50% frá síðustu áramótum. Markaðsvirði bankans á móti bókfærðu eigið fé frá síðasta uppgjöri (price-to-book kennitalan) er nú um 1,18 en til samanburðar er sama hlutfall um 0,85 við efri mörk leiðbeinandi verðbilsins í útboði Íslandsbanka.

Sjá einnig: Yfir 50 milljarða boð á fyrsta degi

Fasteignafélögin þrjú hækkuðu öll í dag. Eik hækkaði um 2,2%, mest allra félaga Kauphallarinnar, Reginn um 1,4% og Reitir um 0,7%.

Síldarvinnslan hækkaði um rúmt prósent í dag en gengi sjávarútvegsfyrirtækisins hafði lækkaði um tæp 3% dagana áður. Brim lækkaði um hálft prósent í dag og hefur nú lækkað um 6,6% á síðustu tveimur vikum, þegar gengi félagsins var í sínum hæstu hæðum.