Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,14% í 1,9 milljarða króna veltu í Kauphöllinni í dag. Um fjórðungur veltunnar var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 1,2% og standa nú í 165 krónum á hlut.

Gengi Arion hefur verið á miklu skriði og hefur hækkað um 74% frá áramótum og um 224% ef horft er aftur til lægsta gengi félagsins í lok mars á síðasta ári. Hlutabréfaverð Arion hefur hækkað um tæp 5% frá því að félagið tilkynnti um sölu á Valitor til Rapyd Europe þann 1. júlí síðastliðinn.

Íslandsbanki hækkaði einnig um 1,4% í dag en bankinn sendi frá sér afkomuviðvörun eftir lokun markaða í gær. Þar kom fram að hagnaður bankans hafi verið 5,3 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi.

Það voru þó sjávarútvegsfyrirtækin sem leiddu hækkanir á hlutabréfamarkaðnum í dag. Síldarvinnslan hækkaði um 2,4%, mest allra félaga í dag, og er nú um 13% yfir genginu í útboði félagsins í maí síðastliðnum. Brim hækkaði um 2,3% í dag og hefur alls hækkað um 12% í júlí.

Á First North markaðnum lækkuðu hlutabréf bæði Play og Solid Clouds sem voru bæði tekin til viðskipta á markaðnum á síðustu dögum. Solid Clouds lækkaði um heil 19% en þó verður að hafa í huga að velta með bréfin nam einungis 2,7 milljónum króna. Gengi Play lækkaði um 1,2% og stendur nú í 24,6 krónum á hlut.