Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,1% í 3,2 milljarða veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Síminn hækkaði mest allra félag eða um 0,9% í 435 milljóna veltu.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 0,8% í 1,4 milljarða króna viðskiptum. Bankinn var líka einn af hástökkvurum Kauphallarinnar í gær en félagið tilkynnti þá um heimild til 10 milljarða króna endurkaupaáætlun ar . Gengi Arion stendur nú í 186 krónum og hefur aldrei verið hærra. Hlutabréfaverð Arion hefur hækkað um 96% í ár. Sé horft til byrjun faraldursins, þegar gengi bankans náði sínu lægsta stigi frá skráningu í 51 krónu, þá hefur hlutabréfaverðið hækkað um 265%.

Icelandair lækkaði um 1,7%, mest allra félaga í Kauphöllinni, en velta með bréf flugfélagsins nam aðeins 67 milljónum í dag. Stundin fjallaði í dag um viðveru Icelandair í Pandóruskjölunum en dótturfélag flugfélagsins, sem skráð var í Tortóla, keypti þrjár Boeing 737 vélar með lánum frá Íslandsbanka og Glitni árið 2004. Einnig tilkynnti flugfélagið um að Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, hefði óskað eftir að láta af störfum.

Á First North markaðnum hækkaði flugfélagið Play um 0,7% í 242 milljóna veltu og náði sínu hæsta gengi frá skráningu í 28,3 krónum á hlut. Fasteignafélagið Kaldalón hækkaði einnig um hálft prósent í  16 milljóna viðskiptum.