Arion banki hélt áfram að hækka í viðskiptum dagsins á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Það sem af er mánuði hefur gengi bréfanna hækkað um nærri fjórðung en bankinn var hástökkvari dagsins í dag auk þess að mest velta var með bréf hans. Alls nam hækkunin 4,82% í 631 milljón króna viðskiptum.

Helmingur félaganna á aðalmarkaði hækkaði í dag en að sama skapi lækkaði helmingur. Næst mest var hækkunin hjá TM, 2,13% í sjö milljón króna veltu, og þar á eftir fylgdi Brim með 1,87% í tveggja milljóna veltu. Hin tryggingafélögin tvö hækkuðu einnig, VÍS um prósent og Sjóvá um 1,57%. Kvika og Iceland Seafood hækkuðu bæði um rúmt prósent.

Á hinum endanum lækkaði Icelandair um 2,63% í 260 milljón króna veltu og Reginn fór niður um rétt rúm tvö prósent í 27 milljón króna viðskiptum. Eik og Reitir lækkuðu einnig, lækkunin í báðum tilfellum var nærri einu prósenti, og þá lækkuðu Origo, Síminn og Sýn lítillega. Marel lækkaði einnig eða um 0,76% í 382 milljón króna veltu.

Alls nam veltan á aðalmarkaði í dag tæpum 2,5 milljarði króna og hækkaði OMXI10 vísitalan um 0,68%. Skuldabréfamegin nam veltan tæpum fjórum milljörðum króna.