Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi fór í 2.046,71 stig í 29,7 milljarða viðskiptum dagsins í dag, en þar af voru langmestu viðskiptin, eða fyrir tæplega 28,1 milljarð króna með bréf Arion banka, en bréf bankans hækkuðu um 3,42% í viðskiptunum og standa þau nú í 78,70 krónum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í dag seldi Kaupþing 20% í bankanum til helminga Taconic Capital annars vegar og hins vegar öðrum stofnfjárfestum fyrir 27,4 milljarða króna, eða 75,5 krónur hvert bréf. Fær íslenska ríkið 10 milljarða af þeirri upphæð í sinn vasa.

Eins og gefur að skilja voru mun minni viðskipti með önnur bréf í viðskiptum dagsins, en næst mest hækkun, eða 2,95% var með bréf Vís, í 130 milljóna króna viðskiptum, en þau fóru í 12,92 krónur. Viðskiptablaðið sagði frá því í gær að félagið væntir nú um 80% hærri hagnaðar á ársfjórðungnum en það hafði áður spáð.

Loks var hækkun bréfa Icelandair sú þriðja mesta, eða um 2,45%, í 164 milljóna viðskiptum, en bréfin enduðu í 10,45 krónum. Í gær gaf félagið út farþegatölur fyrir júnímánuð sem sýndu 15% aukningu milli ára, m.a. vegna „breyttra samkeppnisskilyrða“ eins og það er orðað, en einn helsti keppinautur árið áður, Wow air, er ekki lengur starfræktur.

Einkabankarnir lækkuðu framan að morgni

Kvika banki lækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 3,89%, niður í 10,39 krónur. en næst mest viðskipti voru með bréf bankans, eða fyrir 311 milljónir króna.

Eftir lokun markaða í gær komu fram fréttir um að mannabreytingar yrðu í forystu bankans sem og hjá Arion banka , en í morgun var svo haft eftir formanni Bankasýslu ríkisins að mögulegt yrði að hefja sölu ríkisbankanna strax á þessu ári.

Ósagt skal þó látið hvort þessar fréttir hafi eitthvað með lækkun bréfa einkabankans en framan að morgni lækkuðu einnig bréf Arion banka nokkuð áður en fréttir birtust af sölu Kaupþings í bankanum. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Heimavalla, eða um 0,84% í 56 milljóna viðskiptum og er lokagengi bréfanna 1,18 krónur.