Icelandair lækkaði mest í viðskiptum dagsins í kauphöll Nasdaq á Íslandi, en í litlum viðskiptum þó eða fyrir rétt um 12 milljónir króna. Einungis tvö önnur félög lækkuðu í virði, Brim og Sýn, og svo stóðu þrjú í stað, önnur hækkuðu.

Lækkun Icelandair nam 4,02%, niður í 1,67 krónu, Brim lækkaði um 1,22%, í 40,50 krónur í 757 þúsund króna viðskiptum og Sýn lækkaði um 0,36%, í 36 milljóna króna viðskiptum og fór gengi bréfa félagsins í 27,60 krónur.

Úrvalsvísitalan hækkaði hins vegar um 1,58% og fór hún í 1.816,59 stig. Heildarviðskiptin í kauphöllinni í dag námu 1,5 milljörðum króna, þar af voru mestu viðskiptin með bréf Arion banka, eða fyrir 385,9 milljónir króna, en gengi bréfa bankans hækkuðu jafnframt mest eða um 3,33%, upp í 55,9 krónur.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Marel, eða fyrir 318,1 milljón króna, en gengi þeirra hækkaði um 1,51%, upp í 605 krónur. Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Skeljungs eða fyrir 196,3 milljónir króna, en hækkun bréfa félagsins var sú þriðja mesta í dag, eða 2,56% og fóru þau upp í 7,61 krónu.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær stóð velta félagsins í stað milli ára á fyrsta ársfjórðungi ársins, en hagnaðurinn dróst saman um 60%. Næst mesta hækkunin var svo með bréf TM, eða um 2,69%, upp í 28,60 krónur, en viðskiptpin með bréf gömlu Tryggingamiðstöðvarinnar námu 101 milljón króna.

Gengi krónunnar stóð í stað gagnvart evru, og fæst hún á 158,77 krónur, en krónan styrktist gagnvart breska pundinu en veiktist gagnvart öðrum helstu viðskiptamyntum sínum.

Þannig nam veiking breska pundsins 0,40% og fæst það nú á 181,62 krónur, en Bandaríkjadalurinn styrktist um 0,29%, upp í 146,93 krónur. Japanska jenið styrktist hins vegar mest af þeim helstu eða um 0,75% og fæst jenið nú á 1,3854 krónu.