Arion banki hækkaði um 4,3% í 20,5 milljarða króna veltu í Kauphöllinni í dag. Bróðurpartur veltunnar má rekja til sölu Taconic Capital á öllum eignarhlut sínum í Arion fyrir rúma 20 milljarða króna. Taconic var fyrir söluna stærsti hluthafi Arion banka.

Sjá einnig: Taconic selur allt í Arion banka

Icelandair hækkaði næst mest eða um 1,9% í 75 milljóna króna veltu og stóð gengi flugfélagsins í 1,37 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Næst mesta veltan var með bréf Marels sem hækkuðu um 0,6% í 435 milljóna króna viðskiptum og standa nú í 873 krónum á hlut.

Reitir lækkuðu mest allra félaga eða um 2,6% í dag. Hlutabréfaverð fasteignafélagsins hafa nú lækkað um meira en 15% frá áramótum. Hin tvö fasteignafélögin í Kauphöllinni lækkuðu einnig í dag. Eik lækkaði um 1,8% og Reginn um 1,6%.

Hagar lækkuðu næst mest allra félaga eða um 2,4% í 139 milljóna króna veltu og Festi lækkaði um 2,2% í 170 milljóna króna veltu.