*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 26. febrúar 2021 16:58

Arion hækkar í 6,5 milljarða veltu

Hlutabréfaverð Arion hefur hækkað um 28% í ár og um 138% frá því í mars á síðasta ári.

Ritstjórn
Kauphöllin, Nasdaq

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,9% í átta milljarða króna veltu hlutabréfamarkaðs Kauphallarinnar. Bróðurparturinn af veltunni má rekja til 6,5 milljarða króna viðskipta með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 2,5%. 

Á undanförnum vikum hefur verið töluverð velta með hlutabréf Arion banka sem hafa hækkað um tæp 28% frá áramótum og 138% frá því í mars á síðasta ári. Þar má nefna að stærsti hluthafi bankans, bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, hefur selt í bankanum fyrir 17 milljarða króna í ár. 

Mest lækkaði hlutabréfaverð TM eða um 3,9%. VÍS fylgdi þeim á eftir í 2,8% lækkun, en félagið birti ársuppgjör í gær þar sem fram kom að hagnaður þess hafi numið 1,8 milljörðum króna samanborið við 2,5 milljarða árið 2019. Litlar hreyfingar voru á hlutabréfum Eimskips og Brim, hinna tveggja félaganna sem birtu ársuppgjör í gær, 

Marel lækkaði um 2,1% í 552 milljóna króna veltu í dag og stendur gengi félagsins nú í 890 krónum á hlut. 

Stikkorð: Nasdaq Kauphöllin