Arion banki mun breyta vaxtakjörum sínum á morgun vegna eins prósentu stýrivaxtahækkunar Seðlabanka Íslands í síðustu viku. Arion hækkar vexti á óverðtryggðum íbúðalánum en virðist halda kjörum á verðtryggðum lánum óbreyttum. Breytingarnar taka gildi á morgun samkvæmt tilkynningu bankans.

Óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir Arion hækka um 1,0 prósentustig og verða 6,59%. Fastir óverðtryggðir íbúðalánavextir til þriggja ára hækka um 0,25 prósentustig og verða 7,75%.

Almennir óverðtryggðir kjörvextir Arion hækka um 1,0 prósentustig og verða 7,60%. Yfirdráttarvextir og vextir greiðsludreifinga hækka einnig um eina prósentu. Kjörvextir bílalána hækka um 1,0 prósentustig og verða 8,0%. Breytilegir óverðtryggðir vextir sparnaðarreikninga hækka um allt að 1,00 prósentustig og vextir veltureikninga hækka um 0,10 prósentustig.

Íslandsbanki tilkynnti á föstudaginn síðasta að hann muni hækka breytilega vexti á óverðtryggðum lánum um eina prósentu frá og með 1. júlí næstkomandi.