Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,4% í 2,4 milljarða veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Arion banki hækkaði mest allra félaga Kauphallarinnar en gengi bankans hækkaði um 2,9% í 822 milljóna veltu.

Í morgun var tilkynnt að Samkeppniseftirlitið hefði heimilað sölu Arion á Valitor til Rapyd með skilyrðum, sem fela í sér að Kvika banki taki yfir hluta af samningum Valitor við söluaðila. Arion áætlar að söluhagnaður að frádregnum sölukostnaði sé um 5 milljarðar króna. Bankinn hefur óskað eftir heimild frá FME að hefja 10 milljarða endurkaupaáætlun.

Sjá einnig: Grænt ljós á kaup Rapyd á Valitor

Gengi Kviku banka lækkaði lítillega í 486 milljóna veltu og stóð í 20,6 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Stærstu viðskiptin með hlutabréf Kviku voru þó á genginu 20,9 sem er um 1% en við lokun markaða á föstudaginn.

Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði um 0,8% í 293 milljóna króna viðskiptum í dag og stendur nú í 119,6 krónum á hlut, sem er um 2,2% hærra en söluverðið í útboðið Bankasýslunnar í mars.

Gengi Icelandair hækkaði um 0,7% í 240 milljóna veltu og er komið upp í 1,68 krónur á hlut.