Gengi bréfa Arion banka hækkuðu um 3,89%, í 102 milljóna króna viðskiptum í dag, og fóru upp í 56,10 krónur, en í heildina voru þrjú félög sem hækkuðu um meira en 3% í viðskiptum dagsins.

Hin tvö voru TM, sem hækkaði um 3,52%, upp í 29,40 krónur, í þó ekki nema 15 milljóna króna viðskiptum, en Marel hækkaði um 3,28%, upp í 567 krónur í langmestu viðskiptum dagsins, eða fyrir 519,4 krónur. Það dugði til þess að Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,87%, og endaði hún í 1.766,57 stigum, en heildarviðskiptin með hlutabréf í kauphöllinni í dag námu 1,5 milljarði króna.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf VÍS, eða fyrir 310,7 milljónir króna, en gengi þeirra hækkaði 2,60%, upp í 9,85 krónur. Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Símans, eða fyrir 104 milljónir króna, en gengi bréfa félagsins hækkuðu um 1,96% og endaði það í 5,20 krónum.

Icelandair lækkaði mest eftir tilkynningu í morgun

Þrjú félög stóðu í stað í viðskiptum dagsins, það er Heimavellir, Iceland Seafood og Origo, en þrjú lækkuðu. Mest lækkun var á gengi bréfa Icelandair, eða um 1,37%, í þó ekki nema 26 milljóna króna viðskiptum, og endaði gengi bréfanna í 3,60 krónum. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur félagið hafið leit að auknu fjármagni.

Næst mest lækkun var á gengi bréfa Kviku banka, eða um 0,95%, í 14 milljóna króna viðskiptum, og fór gengið niður í 8,37 krónur. Þriðja mesta lækkunin var á gengi bréfa Eimskipafélags Íslands, eða um 0,79%, í 66 milljóna króna viðskiptum og var lokagengi félagsins 6,20 krónur.

Gengi krónunnar og evrunnar stóð í stað í dag, og fæst sú síarnefnda nú á 154,99 krónur, en gengi Bandaríkjadals veiktist gagnvart krónunni um 0,05%, og fæst hann nú á 143,52 krónur. Gengi japanska jensins veiktist þó mest gagnvart krónunni, eða um 0,67%, í 1,3148 krónur.

Breska pundið styrktist hins vegar um 0,37% gagnvart krónu, og fór það í 176,51 krónu, en mest styrking var á gengi norsku krónunnar, eða um 1,66%, upp í 13,748 krónur.