*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 31. maí 2021 17:25

Arion hækkar vexti

Arion banki hækkar breytilega vexti óverðtryggðra lána um 0,1% og fasta vexti óverðtryggðra húsnæðislána til þriggja ára um 0,15%.

Ritstjórn
Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka.
Eyþór Árnason

Arion banki tilkynnti í dag um hækkun vaxta óverðtryggðra lána á bæði breytilegum og föstum kjörum í kjölfar 0,25% stýrivaxtarhækkunar Seðlabankans 19. maí síðastliðinn.

Óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir hækka um 0,1% og verða 3,54% og óvertryggðir fastir þriggja ára íbúðalánavextir hækka um 0,15% og verða 4,35%. Verðtryggðir íbúðalánavextir og kjörvextir haldast óbreyttir en óvertryggðir kjörvextir hækka um 0,1%. Kjörvextir bílalána voru hækkaðir um 0,1% og yfirdráttarvextir um 0,25%. Þá hækkuðu vextir helstu sparnaðarreikninga um á bilinu 0,1 - 0,25%.

Bæði Íslandsbanki og Landsbankinn tilkynntu um vaxtahækkanir óverðtryggðra lána í dag. Íslandsbanki hækkaði breytilega óverðtryggða vexti íbúðalána um 0,25%, fasta vexti óverðtryggðra íbúðalána til þriggja ára um 0,2% og til fimm ára um 0,55%.

Landsbankinn hækkaði breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum um 0,15% en aðrir vextir á íbúðalánum héldust óbreyttir.